Vistkerfi heimsis eru á hraðari niðurleið en áður hefur þekkst og jarðarbúar nýta auðlindir jarðar hraðar en þær geta endurnýjað sig. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu umhverfissamtakanna World Wide Fund for Nature um ástand jarðar.
Segir í skýrslunni að ef fram haldi sem horfi þurfi mannkynið að minnsta kosti tvöfalt meiri auðlindir árið 2050 en eru nú á jörðinni. Skýrslan sýnir enn fremur að tegundum hryggdýra í heiminum hafi fækkað um þriðjung á árunum 1970 til 2003 og að magn koltvíoxíðs í heiminum vegna brennslu kola og olíu hafi nífaldast á síðustu 40 árum.
Haft er eftir framkvæmdastjóra samtakanna á heimasíðu þeirra að jarðarbúar standi frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum og að þeir verði nú að huga að sjálfbærum lifnaðarháttum.