Fótbolti

Eiður hugsar ekki um að skora á Stamford Bridge

Eiður Smári mætir sínum gömlu félögum í beinni á Sýn á miðvikudagskvöldið
Eiður Smári mætir sínum gömlu félögum í beinni á Sýn á miðvikudagskvöldið NordicPhotos/GettyImages

Eiður Smári Guðjohnsen er nú að leggja lokahönd á undirbúninginn fyrir viðureign Chelsea og Barcelona á Stamford Bridge á miðvikudagskvöldið. Hann segist væntanlega muni fagna hóflega ef hann nær að skora gegn sínum gömlu félögum, en hefur meiri áhyggjur af vini sínum Petr Cech.

"Ég tala reglulega við John Terry og Frank Lampard, en ég hef ekki spjallað við þá síðan Cech meiddist," sagði Eiður í samtali við Sky sjónvarpsstöðina í dag. "Ég hef heyrt að meiðsli Petr Cech séu mjög alvarleg og ég óska honum alls hins besta. Hann er frábær markvörður og góður félagi. Chech er mikilvægur hlekkur í liði Chelsea, en það er Carlo Cudicini líka og ég verð að segja að fyrir mitt leyti er hann einn af fimm bestu markvörðum í heimi," sagði Eiður Smári, sem ætlar ekki að fagna sérstaklega ef hann nær að skora gegn Chelsea á miðvikudagskvöldið.

"Auðvitað væri gaman að skora gegn Chelsea, en ef það gerist, mun ég ekki sýna stuðningsmönnum Chelsea neina vanvirðingu. Þetta er ekki hlutur sem ég hugsa sérstaklega um, ég hugsa fyrst og fremst um að undirbúa mig fyrir leikinn og hitt kemur að sjálfu sér," sagði íslenski landsliðsfyrirliðinn.

Leikurinn á miðvikudagskvöldið verður að sjálfssögðu sýndur í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Sýn og hefst útsendingin klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×