Innlent

16 ára með hass á Akureyrarflugvelli

Við reglubundið fíkniefnaeftirlit með, fíkniefnahundum,  á Akureyrarflugvelli í gærkvöldi fannst moli af hassi á einum farþeganum sem var að koma frá Reykjavík.

Það var sextán ára stúlka sem viðurkenndi að hafa verið í helgarferð á höfuðborgarsvæðinu og neytt þar ýmissa tegunda fíkniefna. Reglulega er leitað að fíkniefnum á flugvellinum með fíkniefnahundum bæði í fragt og á farþegum.

Þá stoppaði lögreglan í gærkvöldi bíl sem var að koma úr Reykjavík og grunur lék á að væri að koma með fíkniefni en ökumaður hans er þekktur að neyslu og sölu fíkniefna.

Var bifreiðin færð á lögreglustöðina og við leit í henni fannst pakki sem talin er innihalda um tuttugu til þrjátíu grömm af hvítu efni sem ætlað er fíkniefni. Var pakkinn falinn í lofthreinsara bifreiðarinnar.

Fíkniefnahundar lögreglunnar voru notaðir við leit í bifreiðinni. Einnig fannst í bifreiðinni m.a. hafnarboltakylfa og brúsi með Mace-gasi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×