Sport

Hraunar yfir enska landsliðið

Bilic er ómyrkur í máli þegar kemur að spilamennsku enska landsliðsins
Bilic er ómyrkur í máli þegar kemur að spilamennsku enska landsliðsins NordicPhotos/GettyImages

Slaven Bilic hefur nú skvett olíu á eldinn fyrir leik Króata og Englendinga í undankeppni EM á miðvikudaginn, en í samtali við breska blaðið The Sun segir Bilic að enska landsliðið hafi verið varnarsinnað og hundleiðinlegt á HM í sumar.

"Enska landsliðið gat ekki neitt á HM og spilaði hundleiðinlega knattspyrnu. Ég hef aldrei á ævi minni séð hóp jafn góðra knattspyrnumanna spila jafn leiðinlega og varnarsinnaða knattspyrnu eins og þeir gerðu í sumar.

Þeir spiluðu ekki eins og lið heldur eins og hópur einstaklinga - og ég sem hélt að þeir hefðu alla burði til að sigra á mótinu. Menn geta endalaust velt sér upp úr því að of mikil pressa hafi verið á liðinu og að væntingarnar hafi verið of miklar - en þetta eru bara lélegar afsakanir.

Ég gat ekki einu sinni útskýrt fyrir níu ára gömlum syni mínum af hverju enska liðið væri svona lélegt. Ég bara skil þetta ekki," sagði Bilic, sem sjálfur spilaði með West Ham og Everton á sínum tíma, en tók við króatíska landsliðinu af Zlatko Kranjcar eftir vonbrigðin á HM.

"Ég skil ekki af hverju enska liðið spilar svona varnarsinnaða knattspyrnu, en mér sýndist liðið spila sömu leiðinlegu varnaraðferðina á móti Makedóníu, svo að það er ekki víst að þetta skrifist eingöngu á Sven-Göran Eriksson," bætti Bilic við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×