Sport

Óttast ekki að gera breytingar

Michael Carrick gæti fengið tækifæri í stað Owen Hargreaves um helgina
Michael Carrick gæti fengið tækifæri í stað Owen Hargreaves um helgina NordicPhotos/GettyImages

Steve McClaren segist hvergi smeykur við að hrista upp í liði sínu fyrir leikinn gegn Makedóníu í undankeppni EM á laugardaginn, en meiðsli Owen Hargreaves gætu þýtt að enska liðið spilaði ekki hefðbundið 4-4-2 kerfi líkt og í undanförnum leikjum. Leikurinn á laugardaginn verður sýndur beint á Sýn klukkan 15:50 á undan leik Letta og Íslendinga.

Owen Hargreaves hefur þótt standa sig með prýði í undanförnum leikjum enska liðsins, en meiðsli hans gætu orðið til þess að McClaren endurskoðaði leikkerfi liðsins.

"Ég hef ekkert á móti því að breyta um leikaðferð og það þýðir ekkert að staðna endalaust í sama kerfinu. Við erum að hugsa málið rækilega um þessar mundir eftir að ljóst varð að Owen yrði ekki með okkur á næstunni," sagði McClaren.

Talið er að þeir Michael Carrick, Scott Parker og Phil Neville séu líklegastir til að taka við hlutverki hins fótbrotna Owen Hargreaves í liðinu. Carrick segist vel kunnugur hlutverki varnartengiliðar síðan hann spilaði með Tottenham.

"Ég naut mín vel í þeirri stöðu hjá Tottenham, en hef tekið að mér nokkuð ólíkt hlutverk hjá Manchester United. Þar fer ég framar á völlinn og það er spennandi, en það er mér mjög náttúrulegt að spila aftar á vellinum af því ég gerði það allan tímann hjá Tottenham," sagði Carrick.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×