Enski boltinn

Dein vill halda Wenger í 10 ár til viðbótar

Arsene Wenger hefur verið mjög sigursæll á síðasta áratug
Arsene Wenger hefur verið mjög sigursæll á síðasta áratug NordicPhotos/GettyImages

Í dag eru liðin tíu ár síðan franski knattspyrnustjórinn Arsene Wenger tók við enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal og hefur stjórnarformaður félagsins gefið það út í tilefni dagsins að Wenger sé æviráðinn hjá félaginu ef hann óskar þess og vonast til að halda honum í að minnsta kosti áratug í viðbót.

Wenger hefur fest sig í sessi sem einn virtasti knattspyrnustjóri heimsins í stjórnartíð sinni hjá Arsenal og hefur skilað í hús þremur meistaratitlum og fjórum bikarmeistaratitlum. Það sem er þó ef til vill merkilegast við tíð Wenger á Englandi, er sú staðreynd að aldrei á nokkrum tímapunkti hefur hann verið talinn valtur í sessi í starfi sínu, enda hafði liðið aldrei endað neðar en í öðru sæti í stjórnartíð hans fyrr en á síðustu leiktíð.

"Ég held að Wenger elski félagið og á sama hátt elskar stjórnin allt það sem hann hefur komið með að borðinu til okkar. Ég hef alltaf sagt að ef sá dagur rennur upp að hann vilji stíga af stóli sem knattspyrnustjóri félagsins - verður alltaf nóg pláss fyrir hann í öðrum stjórnarstöðum hjá Arsenal, enda stenst honum enginn snúning þegar kemur að þekkingu hans á leiknum," sagði David Dein, stjórnarformaður félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×