Enski boltinn

Þrjú úrvalsdeildarlið úr leik

Juan Pablo Angel fagnar hér öðru marka sinna í kvöld
Juan Pablo Angel fagnar hér öðru marka sinna í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Enski deildarbikarinn stóð svo sannarlega undir nafni í kvöld, því þrjú úrvalsdeildarlið féllu úr keppni gegn minni spámönnum í leikjunum fimm sem voru á dagskrá. Aston Villa hélt þó uppi merkjum liða í efstu deild með góðum 2-1 útisigri á Scunthorpe í leik sem sýndur var beint á Sýn. Juan Pablo Angel skoraði bæði mörk Villa í leiknum.

Heiðar Helguson var í byrjunarliði Fulham sem tók á móti Wycombe á heimavelli sínum og skoraði landsliðsmaðurinn mark í leiknum, en það dugði ekki til því úrvalsdeildarliðið þurfti að sætta sig við háðuglegt 2-1 tap.

Manchester City þurfti sömuleiðis að sætta sig við 2-1 tap á útivelli gegn Chesterfield, en líklega var það Middlesbrough sem hlaut mesta kinnroðann í kvöld þegar liðið lá heima fyrir fyrrum lærisveinum Guðjóns Þórðarsonar í Notts County 1-0. Leikur Doncaster og Derby fór loks í framlengingu þar sem staðan var 3-3 eftir venjulegan leiktíma, en Doncaster klúðraði niður þriggja marka forystu í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×