Íslenski boltinn

Hættur viðræðum við Þrótt

Ólafur Þórðarson liggur undir feldi þessa dagana og á von á að hans mál skýrist á næstu viku til tíu dögum
Ólafur Þórðarson liggur undir feldi þessa dagana og á von á að hans mál skýrist á næstu viku til tíu dögum Mynd/Valli

Ólafur Þórðarson, fyrrum þjálfari Skagamanna, staðfesti í samtali við NFS í dag að hann væri hættur viðræðum við knattspyrnudeild Þróttar og gaf þá skýringu að félagið hefði ekki verið tilbúið að veita nauðsynlegan tíma til að vinna úr sínum málum áður en hann gæfi svör um framhaldið. NFS hefur heimildir fyrir því að Ólafur hafi verið í viðræðum við Fram, en Ólafur segist vera í viðræðum við tvö félög og neitar að nokkuð upp um hver þau eru.

"Það er lítið af mér að frétta annað en það að ég er búinn að gefa Þrótturum afsvar," sagði Ólafur í dag. "Viðræður voru komnar töluvert á leið, en þeim lá svo mikið á að fá svar og tímaramminn sem þeir gáfu mér var svo þröngur að ég varð hreinlega að gefa þeim afsvar. Ég er auðvitað að skoða aðra hluti líka, án þess að ég sé að gefa neitt upp um það," sagði Ólafur og sagðist vera í formlegum viðræðum við tvö önnur félög.

Ólafur sagði í samtali við Þorstein Gunnarsson á NFS í gær að hann væri að íhuga að hætta þjálfun. "Ég er að vinna við fleiri hluti en knattspyrnuna og er þar með ýmislegt í gangi líka og ef hlutirnir taka ákveðna stefnu þar, gæti svo farið að ég setti bara þjálfaraferilinn á hilluna," sagði Ólafur.

Eins og áður sagði hefur NFS heimildir fyrir því að Fram hafi átt í viðræðum við Ólaf Þórðarson um að gerast næsti þjálfari félagsins, nú þegar liðið er komið aftur í efstu deild - en Ólafur vill ekkert tjá sig um það. "Ég vil ekkert segja um það," sagði Ólafur, en viðurkenndi að hann væri til í að skoða hvað sem er. "Ég skoða allt áhugavert sem kemur upp á borðið. Ég var nú í viðræðum við ÍR og ekki er það lið í Landsbankadeildinni. Ég horfi mikið á umhverfið og vinnuaðstæður hjá þeim liðum sem til greina koma - því ef þetta er í lagi, er maður til í nánast hvað sem er;" sagði Ólafur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×