Enski boltinn

Sam Allardyce sakaður um spillingu

Sam Allardyce var borinn þungum sökum í þættinum Panorama á BBC í kvöld, en hann hefur vísað öllu sem fram kom í þættinum á bug, líkt og aðrir sem nefndir voru til sögunnar í þættinum. Enska knattspyrnusambandið ætlar að hefja rannsókn á málinu tafarlaust
Sam Allardyce var borinn þungum sökum í þættinum Panorama á BBC í kvöld, en hann hefur vísað öllu sem fram kom í þættinum á bug, líkt og aðrir sem nefndir voru til sögunnar í þættinum. Enska knattspyrnusambandið ætlar að hefja rannsókn á málinu tafarlaust NordicPhotos/GettyImages

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Bolton og einn þeirra sem hvað líklegastir þóttu til að taka við stöðu landsliðsþjálfara Englendinga í sumar, var þungamiðjan í þætti breska sjónvarpsins Panorama, sem sýndur var þar í landi í kvöld, þar sem umfjöllunarefnið var meint spilling í knattspyrnuheiminum á Englandi.

Allardyce var sakaður um að hafa oftar en einu sinni mokað peningum í son sinn með ólöglegum hætti, en sonur hans er umboðsmaður knattspyrnumanna. Nokkur önnur félög á Englandi komu við sögu í þættinum, þar á meðal Liverpool og Chelsea, auk þess sem aðstoðarknattspyrnustjóri Newcastle og Harry Redknapp, stjóri Portsmouth, voru bornir þungum sökum.

Allir þeir sem komu við sögu í þættinum hafa gefið út yfirlýsingu við breska sjónvarpið þar sem þeir neita harðlega öllum ásökunum sem þeir eru bornir í þættinum - en enska knattspyrnusambandið ætlar sér að hrinda af stað ítarlegri rannsókn þar sem farið verður ofan í saumana á þessu alvarlega máli, sem gæti átt eftir að draga talsverðan dilk á eftir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×