Íslenski boltinn

Stefnan sett á 100.000 áhorfendur

Knattspyrnusamband Íslands greinir frá því á vef sínum í dag að ekki sé ólíklegt að aðsóknarmetið í efstu deild karla í knattspyrnu verði slegið um næstu helgi þegar lokaumferð Landsbankadeildarinnar fer fram. Stefnan er sett á að fá 100 þúsund manns á völlinn í fyrsta sinn.

Samkvæmt heimildum KSÍ hefur meðalfjöldi áhorfenda í sumar verið 1091 á leikjum liða í efstu deild, en árið 2001 mættu 1076 manns að meðaltali á hvern leik í deildinni og því eru ágætar líkur á því að það met verði slegið.

Árið 2001 mættu flestir áhorfendur á leiki sumarsins, eða 96.840 manns, en í ár hafa þegar mætt 92.768 manns á völlinn og því er ekki útilokað að gamla metið verði slegið og vonir manna hjá KSÍ standa alltaf til þess að koma heildarfjölda áhorfenda yfir 100.000.

FH-ingar hafa þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í ár, en enn eru eftir mikilvægir leikir í deildinni, því Reykjavíkurliðin Valur og KR eiga eftir að mætast í hreinum úrslitaleik um annað sætið í deildinni í lokaumferðinni - og þá má ekki gleyma því að enn geta fimm lið fallið úr deildinni, svo ljóst er að spennan verður gríðarleg í lokaumferðinni á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×