Enski boltinn

Dáist að Jose Mourinho

Roy Keane hefur miklar mætur á Jose Mourinho
Roy Keane hefur miklar mætur á Jose Mourinho NordicPhotos/GettyImages

Roy Keane, stjóri Sunderland og fyrrum fyrirliði Manchester United, viðurkennir að hann dáist að Jose Mourinho sem knattspyrnustjóra og segir að Portúgalinn hafi sálræna yfirburði á alla aðra stjóra í deildinni.

"Mourinho hefur augljóslega nokkuð sem aðrir stjórar hafa ekki og ég held að meira segja blindur maður átti sig á því. Hann rekur sterkan sálfræðihernað sem hefur mikil áhrif á lið hans og mótherjana sömuleiðis.

Munið þið þegar Chelsea og Mancheseter United áttust við á Stamford Bridge á síðustu leiktíð. Það voru tvær mínútur eftir af uppbótartíma í leiknum, en Mourinho labbaði til Alex Ferguson og tók í höndina á honum og þakkaði honum fyrir leikinn? Fyrir tveimur árum síðan hefði ekki nokkur einasti maður þorað að gera þetta við Ferguson.

Fólk er duglegt við að gagnrýna Mourinho, en svona stælar eru það sem stjórar þrífast á og mér finnst gaman að fylgjast með Chelsea. Lið þeirra er vel skipulagt og menn vita hvað þeir eiga að gera," sagði Roy Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×