Innlent

Vill taka málið upp við yfirstjórn NATO

Varaformaður Samfylkingarinnar vill taka það upp við yfirstjórn NATO að ekkert eftirlit sé með ómerktum flugvélum sem hugsanlega reyna að komast inn í íslenska lofthelgi.

Eins og greint hefur verið frá á NFS er ekkert eftirlit hér á landi með merkjum sem berast frá fjórum rastjárstöðvum á Íslandi en kerfið var sett upp til að verjast ómerktum flugvélum sem hugsanlega reyna að laumast inn í íslenska lofthelgi. Bandaríski herinn sá um eftirlitið en hætti því fyrir nokkrum vikum og hefur ekki áhuga á að halda eftirlitinu áfram, samkvæmt heimildum NFS. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra vill ekki staðfesta að ekkert eftirlit sé með ómerktum flugvélum, en hefur þó ekki neitað því.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, sem jafnframt er varamaður í utanríkismálanefnd Alþingis, segir málið mjög alvarlegt. Hann vill taka málið upp við yfirstjórn NATO því málefni lofthelgi Íslands sé ekki eingöngu mál Íslendinga heldur einnig annarra NATO-ríkja. Ágúst segir að Samfylkingin hafi lengi talað fyrir því að NATO þurfi að koma að varnarviðræðunum með beinum hætti, en ríkisstjórnin hafi þráast við. Niðurstaðan sé sú að viðræðurnar virðast ganga illa, auk þess sem stjórnarandstaðan fái takmarkaðar upplýsingar um það hvernig staðan sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×