Innlent

Bað ekki um að þyrlurnar yrðu lengur

Björn Bjarnason segist ekki hafa beðið Bandaríkjamenn um að halda björgunarþyrlum sínum þar til aðrar þyrlur kæmu í þeirra stað í október en þyrlur hersins fara í næstu viku. Formaður Sjómannasambands Ísland segir það setja sjómenn í hættu að bilið þarna á milli sé ekki brúað því slysin geri ekki boð á undan sér.

Dómsmálaráðherra segir stjórnvöld hafa undirbúið brottför björgunarþyrla hersins, tvær þyrlur hafi verið leigðar og þær komi í október og síðan séu áætlandir um að kaupa nýjar þyrlur. Hann segist aldrei hafa beðið Bandaríkjaher um að hafa þyrlurnar á landinu þar til leiguþyrlurnar kæmu. Björn segir ekki skipta máli þó millibilsástand í stuttan tíma skapist það hafi oft gerst áður að þyrlur varnarliðsins hafi verið bilaðar eða ekki til taks.

Björn segir að ákveðið hafi verið að Íslendingar myndu efla þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar áður en Bandaríkjaher hafi ákveðið að hverfa af landi brott. Síðan hafi verið vitað eftir að herinn færi að þyrlurnar færu í september. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, sagðist í samtali við NFS í dag mjög ósáttur við að þetta bil, frá brottför herþyrlanna til komu leiguþyrlanna, sé ekki brúað. Slysin geri ekki boð á undan sér og þar fyrir utan sé kominn tími haustlægðanna og veður sé mikill áhættuþáttur í lífi sjómanna. Björn Bjarnason segir Landhelgisgæsluna vel undirbúna fyrir þetta millibilsástanda sem skapast eins og hún er tilbúin til að sinna auknum verkefnum framtíðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×