Innlent

Neitar að tjá sig um ratsjárstöðvar

Forsætisráðherra vill ekki tjá sig um þær fréttir að Bandaríkjamenn hafi ekki sýnt áhuga á að hafa eftirlit með merkjum sem berast frá fjórum ratsjárstöðvum hersins á Íslandi. Samkvæmt heimildum NFS ætla Íslendingar að tryggja rekstur stöðvanna áfram með einum eða öðrum hætti.

Fram kom í fréttum NFS í gærkvöldi að ekkert eftirlit er hér á landi með merkjum sem berast frá fjórum rastjárstöðvum hersina á Íslandi en kerfið var sett upp til að verjast ómerktum flugvélum sem reyna að laumast inn í íslenska lofthelgi. Bandaríkjamenn hafa ekki sýnt áhuga á að reka kerfið áfram. Atlantshafbandalagið greiddi fyrir þessar stöðvar og hefur Ratsjárstofnun séð um reksturinn og fyrirtækið Kögun haft umsjón með hugbúnaðarrekstri.

Upplýsingar frá stöðvunum eru notaðar annars vegar við almenna flugumsjón en hins vegar til að verja lofthelgina.

Þar með geta flugvélar ekki laumað sér um lofthelgina óséðar. Fyrir nokkrum vikum hætti Bandaríkjaher þessu eftirlitshlutverki. Samkvæmt heimildum NFS hafa Bandaríkjamenn ekki sýnt neinn áhuga á að reka þessar stöðvar áfram - sem ættu þó að vera einn hornsteinninn í loftvörnum landsina og raunar allra NATO ríkja. Árlegur kostnaður við reksturinn er 1,2 milljarðar króna. Samkvæmt heimildum NFS hafa Íslendingar í hyggju að reka þessar stöðvar áfram og reyna að tryggja að loftvarnarþættinum verði sinnt.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, vildi ekki tjá sig um málið þegar hann var inntur eftir viðbrögðum á ríkisstjórnarfundi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×