Innlent

Tillaga um flýtingu útboða felld

Meirihluti samgöngunefndar Alþingis felldi í morgun tillögu fulltrúa minnihluta þess efnis að ríkisstjórnin dragi nú þegar til baka ákvörðun um að skera niður framkvæmdir á tilgreindum vegaköflum úti á landi og að útboðum verði flýtt til að vinna upp glataðan tíma. Fulltrúar minnihlutans bentu á að vegaáætlun er samþykkt af Alþingi og studd samþykktum fjárlögum og enginn nema Alþingi sjálft geti fellt slíkt úr gildi. það hefði ekki verið gert og þess vegna væri tillagan flutt.

Fulltrúar minihlutans fóru fram á fund í samgöngunefnd eftir að ríkisstjórnin ákvað í lok júní að skera niður framkvæmdir. Óskað var eftir því að bæði samgönguráðherra og fjármálaráðherra yrðu boðaðir á fundinn en sá síðarnefndi mætti ekki. Auk samgönguráðherra mættu til fundarins Ragnhildur Hjaltadóttir, Jóhann Guðmundsson, Karl Alvarsson og Bergþór Ólason frá samgönguráðuneyti og Gunnar Gunnarsson frá Vegagerðinni.

Fulltrúar minnihlutans ítrekuðu þá ósk sína að fjármálaráðherra yrði boðaður á næsta fund til að ræða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um frestun vegaframkvæmda í efnahagslegu tilliti.

Á dagskrá fundarins voru auk stöðunnar í frestunar- og niðurskurðarákvörðunum í vegamálum, öryggismál í tengslum við eldsneytisflutninga á þjóðvegum, afleiðingar vaxandi þungaflutninga eftir þjóðvegum landsins og hvernig bregðast má við til að bæta þar úr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×