Leiðtogi íslömsku skæruliðahreyfingarinnar sem lagði undir sig Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í síðustu viku hefur heitið því að samtök hans muni ekki steypa Abdullah Yusuf, forseta landsins, af stóli. Fréttir bárust í gær af því að eþíópískt herlið hefði ráðist inn í landið til að koma bráðabirgðastjórn Yusuf til aðstoðar en því hafa Eþíópar raunar neitað. Yusuf lýsti því yfir í gær að hann væri reiðubúinn til samninga við skæruliðana gegn því að þeir lofuðu að láta staðar numið í sókn sinni. Skæruliðarnir segjast fyrir sitt leyti tilbúnir til viðræðna, en án nokkurra skilyrða.
