Lífið

Hátíðardagskrá á Hrafnseyri

Eins og undanfarin ár verður vegleg hátíðardagskrá á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 17. júní. Í ár er dagskráin þó glæsilegri en oft áður þar sem nú er hún samtvinnuð við sumarháskólann á Hrafnseyri sem nú er starfræktur í fyrsta sinn, en sumarháskólinn er sameiginlegt verkefni Háskólaseturs Vestfjarða og Safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Allir fyrirlestrar sumarháskólans dagana 17. og 18. júní eru opnir almenningi, en umfjöllunarefni sumarháskólans að þessu sinni er safnahönnun og sýningargerð.

Að morgni dags þann 17. júní hefst formleg dagskrá sumarháskólans með ávarpi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og stjórnarformanns Háskólaseturs Vestfjarða. Að því loknu taka við fyrirlestrar sumarháskólans og pallborðsumræður. Stjórnendur pallborðsumræðna og kynnar á sumarháskólanum dagana 17. og 18. júní eru Sigurður Pétursson sagnfræðingur, Ólöf Guðný Valdimarsdóttir arkitekt, Halla Gunnarsdóttir starfsmaður Morgunblaðsins og Jón Karl Helgason starfsmaður RUV. Eins og komið hefur fram í fyrri tilkynningum um sumarháskólann og hátíðardagskrá á Hrafnseyri 17. júní er listi fyrirlesara sumarháskólans mjög glæsilegur og eru allir fyrirlestrar dagana 17. og 18. júní opnir almenningi. Fyrirlesarar eru sérfræðingar í sýningagerð og safnahönnun og á meðal þeirra eru fyrirlesarar frá nær öllum Norðurlöndunum.

Einn fyrirlesaranna, Ralph Appelbaum, kemur frá Bandaríkjunum og er hann stofnandi stærsta sýningahönnunarfyrirtækis heims og er sumarháskólanum sýndur mikill heiður með heimsókn hans þar sem hér er um mjög upptekinn mann að ræða en nú í vikunnni var hann með fyrirlestra í Kaupmannahöfn, Kóreu og Los Angeles og á mánudaginn n.k. verður hann í Seattle í Bandaríkjunum. Þess á milli skreppur hann á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 17. júní. Fyrirlestur hans, sem hefst kl. 17:00 ber heitið „Museum Experiences in a Global Society".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×