Sport

2 marka sigur FH í Laugardalnum

Mafían, stuðningsmenn FH sjást hér kátir í austur-stúkunni á Laugardalsvelli í kvöld.
MYND/Heiða
Mafían, stuðningsmenn FH sjást hér kátir í austur-stúkunni á Laugardalsvelli í kvöld. MYND/Heiða
Íslandsmeistarar FH unnu tveggja marka útisigur á Val, 0-2 á Laugardalsvelli í kvöld í lokaleik 2. umferðar Landsbankadeildar karla í knattspyrnu. Valsmenn voru síst lakari aðilinn í leiknum en máttu sætta sig við að fá bæði mörkin á sig eftir aukaspyrnur Tryggva Guðmundssonar. Ármann Smári Björnsson og Freyr Bjarnason skoruðu mörk Íslandsmeistaranna sem eru með fullt hús stiga eftir tvær umferðir eins og Breiðablik og Fylkir en Valsmenn eru ennþá án stiga ásamt Skagamönnum Víkingum.

FH komst yfir á 32. mínútu með marki Ármanns Smára. FH fékk aukaspyrnu úti vinstra meginn eftir að Valur Fannar Gíslason braut á Davíði Viðarssyni. Tryggvi Guðmundsson tók aukaspyrnuna sem rataði beint á kollinn á hinum stóra og stæðilega Ármanni Smára Björnssyni, miðverði FH, og hann með hörkuskalla í þverslána og inn. Kjartan Sturluson markvörður Vals var í boltanum en náði ekki að koma í veg fyrir að hann færi inn í markið.

FH-ingar gulltryggðu sigurinn á 79. mínútu þegar Tryggvi tók aukaspyrnu frá hægri og gaf háa sendingu á fjarstöng þar sem Freyr var mættur og náði með harðfylgi að pota boltanum inn við stöngina fjær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×