Innlent

Heitt í kolunum á fundi um aldraða

Sumum var heitt í hamsi. Mikið var baulað á fjármálaráðherra og í það minnsta einn fjarlægður vegna háreisti.
Sumum var heitt í hamsi. Mikið var baulað á fjármálaráðherra og í það minnsta einn fjarlægður vegna háreisti. MYND/Hörður
Heilbrigðisráðherra voru afhentar hátt í þrettán þúsund undirskriftir aldraðra og fatlaðra um bætt kjör, á hátt í þúsund manna fundi þessara hópa með fulltrúum stjórnvalda í Háskólabíói í gærkvöldi, þar sem heitt var í kolunum.

Stefán Ólafsson prófessor skýrði þar hvernig rekja mætti aukna skattbyrði aldraðra til rýrnandi skattleysismarka og greindi frá þeirri niðurstöðu nýrrar skýrslu OECD-ríkjanna um kjör aldraðra, að lífeyriskjör Íslendinga væru undir meðallagi í þessum ríkjahópi. Flestum talsmönnum stjórnvalda, að Steingrími J. Sigfússyni undanskildum, var tíðrætt um að flytja málefni aldraðra í auknum mæli yfir til sveitarfélaga, svo fremi sem þau fengju tekjustofna til að mæta útgjöldum vegna þess, og draga úr lífeyrisskerðingu vegna atvinnutekna. Sumum fundarmönnum þótti sem stjórnmálamennirnir væru að reyna að skorast undan ábyrgð og létu svo rækilega í sér heyra að gripið var til þess ráðs að fjárlægja þá af fundarstað.

Í framhaldi af fjöldafundinum í gærkvöldi gekk Ólafur Ólafsson formaður Félags eldri borgara á fund Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra nú fyrir hádegið til að ræða málefni aldraðra nánar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×