Sport

Biðum eftir vítakeppninni

Steven Gerrard og Rafa Benitez taka hér glaðir við enska bikarnum eftir sigurinn á West Ham í sögulegum úrslitaleik í dag
Steven Gerrard og Rafa Benitez taka hér glaðir við enska bikarnum eftir sigurinn á West Ham í sögulegum úrslitaleik í dag NordicPhotos/GettyImages

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool og maður bikarúrslitaleiksins í dag, sagði að sigurinn hefði verið einstakur fyrir sig. Þrátt fyrir hetjulega tilburði markvarðarins Jose Reina í lokin, var það Gerrard sem var maður leiksins og hann þakkaði sigurinn baráttuanda Liverpool-liðsins.

"Þetta var einstakur sigur, stuðningsmennirnir voru frábærir og West Ham spilaði frábærlega. Það var hinsvegar baráttugleði okkar sem gerði útslagið í dag, því við vorum alveg búnir á því í lokin og biðum bara eftir vítakeppninni. Þar sýndi sig að við vorum með betri markvörð en þeir og Jose átti skilið að vera hetja dagsins með frammistöðu sinni í vítakeppninni," sagði Gerrard.

"Þetta var erfiður dagur fyrir mig, en ég hafði sem betur fer heppnina með mér í dag. Í svona leikjum er skammt á milli þess að gera mistök eða verja og vera hetja dagsins," sagði markvörðurinn Reina, sem varði þrjár spyrnur West Ham í vítakeppninni.

Rafa Benitez eignaði leikmönnunum sigurinn í dag. "Við ræddum það fyrir leikinn að vissulega gæti West Ham skorað mörk - en við vissum líka að þeir fá líka oft á sig mörg mörk, svo þetta var alltaf bara spurning um að gefast ekki upp. Baráttuandinn hjá mínum mönnum var frábær og stuðningsmennirnr voru okkur svo sannarlega mikilvægir í dag. Þetta er frábær tilfinning, ótrúleg tilfinning," sagði Rafa Benitez, stjóri Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×