Innlent

Hætt við að kennsla flytjist úr landi ef flugvöllur fer

Hætt er við að flugkennsla og þjálfun flytjist úr landi ef Reykjavíkurflugvöllur verður fluttur, að mati Matthíasar Arngrímssonar flugmanns hjá Icelandair og yfirkennara hjá flugfélaginu Geirfugli.

Matthías færir þau rök fyrir þessu í nýútkomnu fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna að mikið og kostnaðarsamt óhagræði fylgi því að flytja flugnámið til dæmis til Egilsstaða eða Akureyrar. Þar séu veðurskilyrði heldur ekki eins heppileg og í Reykjavík.

Varðandi Keflavík segir hann að alþjóðaflug stærri véla muni aukast þar, en umferð stórra áætlunarvéla og smávéla hafi aldreil farið vel saman. Auk þess verði völlurinn hugsanlega áfram NATO-stöð, með tilheyrandi kvöðum.

Leggist Reykjavíkurflugvöllur af muni flugnámið að líkindum flytjast úr landi og þaðan komi svo íslensksir flugmenn til starfa hér án þess að hafa nokkurn tíma flogið á Íslandi. Hann bendir á að grasrót flugsins hér á landi sé á Reykjavíkurflugvelli og margvísleg starfsemi sé henni tengd, sem einnig legðist af ef völlurinn yrði fluttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×