Innlent

Aðgerðaleysi ráðherra gagnrýnt

Stjórnarandstæðingar deildu hart á heilbrigðis- og fjármálaráðherra við upphaf þingfundar í dag. Þeir gagnrýndu ráðherrana fyrir aðgerða- og úrræðaleysi þegar kæmi að því að leysa stöðuna á hjúkrunarheimilum og óskuðu eftir því að forsætisráðherra hlutaðist til um málið.

Þuríður Bachman, þingmaður Vinstri-grænna, hóf umræðuna og kallaði eftir lausnum á þeirri stöðu sem komin er upp á hjúkrunarheimilum. Hún sagði óásættanlegt að rekstur þeirra væri í uppnámi og kallaði eftir að kjör starfsfólks yrðu bætt. "Spjótin standa á fjármálaráðherra," sagði Þuríður og krafðist aðgerða. Hún sagði að heilbrigðisráðherra þyrfti einnig að koma að málinu.

Upphaflega hafði Þuríður kallað eftir afstöðu forsætisráðherra þar sem fagráðherrar hefðu bent hvorir á aðra en forsætisráðherra tók ekki þátt í umræðunni.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra lýsti áhyggjum af stöðunni en benti á að fulltrúar starfsmanna og stjórnenda hjúkrunarheimila ætluðu að funda og að rétt væri að bíða niðurstöðu þess fundar. Undir þau orð tók fjármálaráðherra.

Margir stjórnarandstæðingar tóku til máls og sögðu að vandann hefðu allir séð fyrir nema ef til vill stjórnvöld. Þeir bentu á að stjórnarandstæðingar hefðu varað við vandanum þegar unnið var að gerð fjárlaga þessa árs en að þá hefðu stjórnarliðar ekkert viljað gera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×