Innlent

Samfylkingin vill öldrunarmálin úr höndum ríkisstjórnarinnar

Oddvitar beggja stjórnarflokkanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor vilja að ríkisstjórnin taki strax á þeim vanda sem uppi er á dvalarheimilum aldraðra. Samfylkingin í Reykjavík vill hins vegar taka öldrunarmálin algerlega úr höndum ríkisstjórnarinna.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, gerði deiluna á dvalarheimilum aldraðra í borginni að umtalsefni á fundi sjálfstæðismanna á Akureyri í gær. Tvisvar hafa ófaglærði starfsmenn á heimilunum gripið til setuverkfalls til að krefjast sambærilegra kjara og starfsmenn sveitarfélaganna en ráðherrar fjármála og heilbrigðismála hafa kastað málinu á milli sín. Vilhjálmur segist hafa hvatt ríkisstjórnina og ekki síst fjármálaráðherra að taka á málinu og að það verði leyst sem allra fyrst. Annað gangi ekki.

Undir þetta tekur Björn Ingi Hrafnsson, fyrsti maður á lista framsóknarflokksins í Reykjavík. Hann segir að ljúka málinu á næstu dögum. Ekki sé hægt að bíða lengur með að leysa málið, það séu það mikil sárindi hjá starfsfólkinu að við það verði ekki unað.

Báðir vonast þeir til að ríkisstjórnin láti til sín taka í málinu á allranæstu dögum. En Samfylkingarfólk í borginni virðist vera búið að fá nóg af því sem það kallar sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra. Það vill að öll málefni aldraðra verði flutt til sveitarfélaganna. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að það sé býsna holur hljómur í því að sjálfstæðismenn kynni sig nú til leiks sem sérstakan málsvara aldraðra. Lengsta seturverkfall í sögu þjóðarinnar sé í raun setuverkfall forystu Sjálfstæðisflokksins í málefnum aldraðra sem staðið hafi í meira en tíu ára og virðist ekkert lát vera á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×