Innlent

Málsókn gegn Norðmönnum eina leiðin

Stjórnarandstæðingar voru sumir hverjir óánægðir með hversu lengi hefði dregist að taka ákvörðun um málsókn gegn Norðmönnum.
Stjórnarandstæðingar voru sumir hverjir óánægðir með hversu lengi hefði dregist að taka ákvörðun um málsókn gegn Norðmönnum.

Málsókn gegn Norðmönnum virðist eina leiðin til að binda endi á ofríki þeirra við Svalbarða sagði utanríkisráðherra á Alþingi í dag. Ekki er þó ljóst hvenær af málsókn verður.

Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, innti utanríkisráðherra eftir því hvað liði málsókn gegn Norðmönnum. Magnús sagði Norðmenn hafa brotið á Íslendingum og taldi brýnt að gripið yrði til aðgerða, enda um mikilvægt mál að ræða.

Geir H. Haarde utanríkisráðherra tók undir að Norðmenn hefðu farið harkalega fram gegn Íslendingum og fleiri þjóðum. Hann sagði að því virtist sem málsókn á hendur Norðmönnum væri eina leiðin sem væri fær úr því sem komið er. Ráðherra sagði að kallað hefði verið eftir upplýsing, lögmenn unnið í málinu og rætt hefði verið við önnur ríki sem eiga aðild að Svalbarðasamkomulaginu frá 1920.

Stjórnarandstæðingum fannst sumum að málið hefði gengið hægt fyrir sig. Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, sagði að hann hefði viljað sjá meiri gang í aðgerðunum.

Þingmaður Samfylkingarinnar lagði út af því að ráðherra sagði undirbúning hafa byrjað í ágúst 2004. Jón Gunnarsson sagði að 20 mánuðir væru nú liðnir frá því stjórnvöld hófu að undirbúa málsókn og var ósáttur við hversu lengi málið hefði dregist.

Ráðherra sagði að um flókið þjóðréttarmál væri að ræða og því tæki tíma að undirbúa aðgerðir. Auk þess væri reynt að ná samningum við Norðmenn áður en málsókn hæfist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×