Innlent

Fyrsta sérhæfða geðdeildin fyrir aldraða

MYND/Gunnar

Geðdeild fyrir aldraða verður sett á laggirnar á Landakotsspítala, sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Þetta er meðal aðgerða sem heilbrigðisráðherra kynnti í dag sem ætlaðar eru til að bæta geðheilbrigðisþjónustu við aldraða hér á landi.

Þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði í desember síðastliðnum faghóp til að koma með ábendingar um hvernig megi bæta geðheilbrigðisþjónustu við aldraða hér á landi. Hópurinn hefur nú skilað umbeðnum ábendingum og kynnti nýr heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, þær á blaðamannafundi í heilbrigðisráðuneytinu í dag.

Þar ber fyrst að nefna sérhæfða hjúkrunardeild fyrir aldraða sem glíma við geðkvilla sem setja á á laggirnar á hjúkrunarheimilinu í Sogamýri sem tekið verður í notkun á næsta ári. Í öðru lagi hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að undirbúa rekstur sérstakrar geðdeildar fyrir aldraða á Landakoti, en auk þess leggur ráðherra áherslu á að komið verði á fót ráðgjafarþjónustu á landsvísu fyrir heilsugæslu, spítaladeildir og hjúkrunarheimili. Markmiðið yrði að tryggja öldruðum um land allt sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu eftir þörfum. Þá var ein ábendinga hópsins að efla þurfi forvarnir og auka þátt heilsugæslunnar í geðheilbrigðisþjónustu við aldraða, og það þurfi að byggja upp sérhæfða þjónustu fyrir aldrað fólk með geðsjúkdóma.

Heilbrigðisráðherra segir áætlaðan kostnað ekki liggja fyrir, en það muni kosta talsverða fjármuni að koma upp hjúkrunarheimilinu í Sogamýri. Ráðherrann gerir hins vegar ráð fyrir að geðdeildin á Landakoti verði komið upp innan þess ramma sem þar er fyrir því þeir sem fari í sérhæfðu úrræðin í Sogamýri komi af spítalanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×