Sport

Egyptar í undanúrslit

Lokaspretturinn í Afríkukeppninni í knattspyrnu er hafinn. Í gærkvöldi tryggðu Senegalar og Eygptar sér sæti í undanúrslitum keppninnar sem fer nú fram Egyptalandi. Heimamenn mættu Kongo-mönnum í 8-liða úrslitum í Kairo í gærkvöldi. Áður en leikurinn hófst var mínútu þögn til þess að minnast þeirra Egypta sem létust í ferjuslysinu í Rauðahafinu 18 klukkustundum áður en leikurinn hófst.

80 þúsund áhorfendur fögnuðu þegar Egyptar fengu vítaspyrnu á 33. mínútu. Amir Zaki var felldur í teignum af Ndanu Kasongo og vítaspyrnan var ekki umflúin.

Ahmed Hassan skoraði, 1-0 fyrir Egypta.

Egyptar komust í 2-0 5 mínútum fyrir leikhlé. Hinn 39 ára sóknarmaður, Hossam Hassan, skoraði 65. mark sitt með egypska landsliðinu eftir mistök Ndanu Kasongo þess hins sama sem fékk dæmt á sig vítaspyrnuna 7 mínútum áður.

Kongo-menn náðu að minnka muninn skömmu áður en flautað var til leikhlés. Eftir hornspyrnu fór boltinn af varnarmanni Egypta og í netið. Það var varnarmaðurinn Abdel El Saka sem var svo óheppinn að skora sjálfsmark. Á 58. mínútu sendi Amir Zaki boltann á Emad Moteb sem skoraði og kom Egyptum í 3-1.

Mínútu fyrir leiklok gulltryggðu Egyptar 4-1 sigur þegar Ahmed Hassan skoraði beint úr aukaspyrnu. Þetta var þriðja mark hans í keppninnni. Egyptar unnu 4-1 og mæta Senegölum í undanúrslitum 10. febrúar.

Fyrr í gær unnu Senegalar, Gíneumenn 3-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×