Innlent

Ætluðu að stela 300 kílóa hraðbanka

Tveir menn gerðu vonlitla tilraun til að stela 300 kílóa hraðbanka úr útibúi Landsbankans að Kletthálsi í gærmorgun.
Tveir menn gerðu vonlitla tilraun til að stela 300 kílóa hraðbanka úr útibúi Landsbankans að Kletthálsi í gærmorgun. MYND/Vilhelm

Tveir karlmenn reyndu að stela þrjú hundruð kílóa hraðbanka úr útibúi Landsbankans að Kletthálsi í Reykjavík á miðvikudagsmorgun.

Mennirnir losuðu hraðbankann, mjökuðu honum að hurð bankans og veltu honum á hliðina. Öryggiskerfi bankans fór í gang og tóku myndavélar í anddyrinu aðfarirnar upp á myndband. Þegar öryggisvörður kom á vettvang lá hraðbankinn í dyragættinni en mennirnir höfðu hypjað sig.

Öryggisvörðurinn gerði lögreglunni viðvart laust fyrir klukkan átta og kom hún á vettvang og rannsakaði vegsummerki eftir ránstilraunina.

Mennirnir voru ekki með nein verkfæri þegar þeir reyndu að fremja ránið og bendir það til að um skyndiákvörðun hafi verið að ræða.

Haukur Þór Haraldsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans, segir að mennirnir hafi líklega ekki áttað sig almennilega á því hvað þeir voru að gera; að þeir væru í beinni útsendingu meðan þeir böðluðust á hraðbankanum. „Ef þeir hefðu litið upp og séð myndavélina þá hefðu þeir áttað sig á því að þetta var vonlaus tilraun," segir Haukur og bætir því við að hraðbankar í landinu hafi yfirleitt verið látnir í friði.

Að sögn Hauks var hraðbankinn illa festur, hann var ekki boltaður niður í gólfið, sem venjulega er gert til að festa slíka hraðbanka. Ástæðan er sú að það er hiti í flísunum í anddyri útibúsins sem gerir það ómögulegt að festa hraðbankann með boltum því þeir eyðileggi hitamottuna undir flísunum. „Í þessu tilfelli var hraðbankinn festur með lélegustu festingunum okkar."

Haukur segir að hugsanlega hafi tæknibúnaður inni í hraðbankanum skemmst en að líklega sé ekki um mikið tjón að ræða fyrir bankann.

Starfsmaður lögreglunnar í Reykjavík segir að ekki sé gáfulegt að stela slíkum hraðbönkum því yfirleitt séu ekki miklir peningar í þeim. Hann segist eingöngu muna eftir einu slíku ráni. Það átti sér stað í anddyri Kennaraháskólans fyrir nokkrum árum. Þá náðu þjófar að nema hraðbanka á brott og gómaði lögreglan mennina og var hraðbankinn í bíl þeirra.

Lögreglan rannsakar nú ránstilraunina og býst við því að handtaka þjófana fljótlega ef þeir gefa sig þá ekki fram áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×