Innlent

Fyrsta konan til að gegna starfinu

Sigrún Björk Jakobsdóttir tekur við starfi bæjarstjóra á Akureyri 9. janúar næstkomandi. Þá sest Kristján Þór Júlíusson, fráfarandi bæjarstjóri, í stól forseta bæjarstjórnar en Sigrún hefur gegnt því embætti á þessu kjörtímabili. Kristján Þór mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum en hann hlaut fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í liðinni viku.

Sigrún Björk verður fyrst kvenna til að gegna embætti bæjarstjóra á Akureyri.

„Áherslur kvenna eru oft á tíðum öðruvísi. Það eru 79 sveitafélög á landinu í dag og af þeim eru 20 þar sem konur gegna embætti sveitarstjóra. Ég fagna auknum hlut kvenna í þessum hópi og hlakka til að takast á við þau verkefni sem bíða,“ segir Sigrún.

Hún segist ekki ætla að gera stórar breytingar þegar hún tekur við starfinu.

„Akureyri er með mjög skýrt mótaða stefnu í sínum málum og meirihlutaflokkarnir hafa góðan málefnasamning sem ég mun vinna eftir.“

Sigrún hefur setið í bæjarráði en Hjalti Jón Sveinsson mun taka við sæti hennar þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×