Innlent

Fleiri komur í Kvennaathvarf

Segir að rjúfa þurfi einangrun aldraðra og auka sjálfstæði þeirra til að sporna við ofbeldi gagnvart öldruðum.
fréttablaðið/gva
Segir að rjúfa þurfi einangrun aldraðra og auka sjálfstæði þeirra til að sporna við ofbeldi gagnvart öldruðum. fréttablaðið/gva

Í fyrra var metár í komum kvenna í Kvennaathvarfið og stefnir í enn meiri fjölda í ár. Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi sem Fræðslunefnd Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa stóð fyrir í gær og var yfirskrift fundarins ofbeldi á heimilum.

Í fyrra komu 92 konur í dvöl og 465 í viðtöl að sögn Sigþrúðar Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, sem hefur verið rekið síðan árið 1982.

Á þeim tíma hafa alls um 7.000 konur komið í athvarfið og 2.400 börn. Um 26 prósent kvenna sem komu í athvarfið í fyrra fóru aftur heim í óbreytt ástand.

Sigþrúður sagði athugavert að lítið væri um að eldri konur kæmu í athvarfið og til dæmis hefði engin kona eldri en 57 ára komið í fyrra. Ofbeldi gagnvart öldruðum var einnig rætt á fundinum og gerði Kristjana Sigmundsdóttir félagsráðgjafi meðal annars kerfislægt ofbeldi að umtalsefni þar sem úrræðaleysi þjónustu sé ákveðin gerð ofbeldis gagnvart öldruðum.

Kristjana sagði ýmsar rannsóknir benda til þess að þrjú til tíu prósent eldri borgara verði fyrir ofbeldi af ýmsu tagi. Þó sé talið að það sýni aðeins brot vandans þar sem aldraðir viðurkenni síður að þeir verði fyrir ofbeldi.

Fundurinn var í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem fjöldi félagasamtaka stendur að.

Meiri upplýsingar á síðu Kvennaathvarfsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×