Hjörtur Magni Jóhannsson, safnaðarprestur Fríkirkjunnar í Reykjavík, segir mikla mismunun eiga sér stað á milli trúfélaga á Íslandi. Hann segir að í raun ríki ekki trúfélagafrelsi hérlendis því á hverja ári fái þjóðkirkjan vel á fjórða milljarð króna í framlög frá ríkinu á þeim forsendum að ríkið sé að greiða út kirkjusögulegan arf allra landsmanna. Hann minnir á að 50 þúsund Íslendingar standi fyrir utan þjóðkirkjuna og því felist í þessu mikið óréttlæti.
„Ég hef sett fram þessa gagnrýni áður og bent á að þetta stangast á við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Forsendur jafnréttis og trúfrelsis byggjast á að opinberum gjöldum einstaklinga sé ekki með beinum eða óbeinum hætti ráðstafað til eflingar trúfélags sem viðkomandi á ekki aðild að. Einnig að trúfélögum sé ekki mismunað með fjárveitingum. Hvort tveggja er brotið með þessu,“ segir Hjörtur Magni.
Hann segir að bæði dóms- og kirkjumálaráðuneytið, ráðherra málaflokksins og þjóðkirkjustofnunin réttlæti fjárveitingarnar með fjarstæðukenndum rökum. „Á sama tíma segir biskup að engin ríkiskirkja sé til en þiggur þó laun sín frá ríkinu í hverjum mánuði. Ég vil meina að þetta sé siðlaust þótt það sé löglegt.“
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, vildi ekki tjá sig um gagnrýni Hjartar í gær.