Innlent

Veður fer batnandi á landinu

Hvassviðrið að ganga yfir. Myndin er tekin við Vestmannaeyjar.
Hvassviðrið að ganga yfir. Myndin er tekin við Vestmannaeyjar.

Hvassviðrið sem gekk yfir landið í gær er í rénun; vindhraði verður ekki eins mikill í dag, segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Í gær var vindhraði mestur við Lómagnúp sunnan Vatnajökuls, en hann var almennt á bilinu 30 til 40 m/s, en þó fór hann upp í 50 m/s í gærmorgun. Varað var við óveðri á þessu svæði.

Vindhraði var annars víða 15 til 20 m/s á Suðurlandi og á Austurlandi.

Færð var góð á Suður- og Suðvesturlandi í gær en á Vesturlandi og Vestfjörðum var víða hálka eða hálkublettir á vegum.

Veðrið var verst á Norðurlandi og Austurlandi því þar var víða hríðarveður og stórhríð. Ófært var yfir Vopnafjarðarheiði, Fagradal, Sandvíkurheiði, Fjarðarheiði, Oddsskarð, Þverárfjall, Breiðdalsheiði og Öxi.

Frostið á landinu var víða á milli fimm og átta stig í gær og segir Þorsteinn að reikna megi með álíka miklu frosti í dag.

Nokkur snjókoma og éljagangur var víða á landinu í gær, sérstaklega á Vestfjörðum, en Þorsteinn segir að reikna megi með minni ofankomu í dag.

Í dag verður hæg norðanátt víða á landinu og vindhraði um 5 til 8 m/s. Þó verður áfram hvassviðri á Austurlandi að sögn Þorsteins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×