Innlent

Lýsa yfir vonbrigðum sínum

Frá hvalstöðinni. Íslenskum stjórnvöldum hefur verið afhent mótmælaskjal 25 þjóða vegna atvinnuhvalveiða.
Frá hvalstöðinni. Íslenskum stjórnvöldum hefur verið afhent mótmælaskjal 25 þjóða vegna atvinnuhvalveiða. MYND/Vilhelm

Alp Mehmet, sendiherra Breta á Íslandi, afhenti í gær mótmæli 25 þjóða og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við hvalveiðum Íslendinga í atvinnuskyni. Í mótmælaskjali sem sendiherrann afhenti Grétari Má Sigurðssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, kemur fram að þjóðirnar vilji ítreka mótmæli sín og vonbrigði vegna atvinnuhvalveiða Íslendinga og eru stjórnvöld hvött til að endurskoða ákvörðun sína.

Fram kemur í skjalinu sú skoðun að veiðarnar geti heft vöxt hvalaskoðunar hér á landi og að Íslendingar hafi ákveðið veiðikvóta út frá gögnum sem hvorki hafi verið kynnt, farið yfir né samþykkt af vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins og það grafi undan starfsemi ráðsins.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir þessi mótmæli vera áþekk þeim sem bárust þegar hvalveiðar í vísindaskyni hófust árið 2003. „Þetta eru allt gamlir kunningjar úr hvalaumræðunni sem eru að ítreka sjónarmið sín, og heyrst hafa margoft áður. Ég virði þessar skoðanir sem þarna koma fram en við erum í fullum rétti og ég geri ekki ráð fyrir frekari aðgerðum af hálfu þessara þjóða."

Meðal þeirra þjóða sem skrifuðu undir mótmælin eru Argentína, Ástralía, Brasilía, Chile, Tékkland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Írland, Ítalía, Nýja-Sjáland, Portúgal, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×