Erlent

Rafmagnsleysi í aftakaveðri

Flóð í Hamborg. Ein afleiðing stormsins sem gekk yfir Þýskaland og Skandinavíu í gær voru gríðarleg flóð í Hamborg.
Flóð í Hamborg. Ein afleiðing stormsins sem gekk yfir Þýskaland og Skandinavíu í gær voru gríðarleg flóð í Hamborg. MYND/Nordicphotos/afp

Stórhríð olli rafmagnsleysi á fimmtíu þúsund heimilum í Svíþjóð í gærmorgun, þegar vindhviður brutu niður rafmagnsstaura.

„Það er þessi blanda af blautum snjó og hvössum vindi sem veldur vandræðum,“ sagði Jakob Holmstrom, talsmaður orkufyrirtækisins E.ON.

Í Danmörku var Stórabeltisbrúnni lokað, og vega- og lestarsamgöngur lágu niðri víða í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Eins var öllum ferðum smærri skipa milli Finnlands og Eistlands aflýst.

Veðrið olli því einnig að ferjan Crown of Scandinavia gat ekki lagst að bryggju í Kaupmannahöfn, heldur beið áhöfnin og sex hundruð farþegar í marga klukkutíma utan hafnarinnar eftir að veðurofsann lægði, að því er fram kom á fréttavef Politiken. Skipið var að koma frá Ósló.

Stormsins varð einnig vel vart í Þýskalandi, þar sem tré fuku á hús og bíla og ruslafötur og útikamrar þeyttust á haf út. Í Hamborg flæddi inn í hús og í höfninni þar slitnaði gámaflutningaskip frá bryggju og veltist stjórnlaust uns áhöfninni tókst að binda skipið á ný.

Veðrið lægði þegar leið á daginn og komust samgöngur smám saman í samt lag.

Ekki bárust fregnir af neinum alvarlegum slysum á fólki, en sjö manna áhöfn á þýsku strandferðaskipi var bjargað giftusamlega um borð í þyrlu eftir að stýrikerfi skipsins gaf sig við landamæri Þýskalands og Hollands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×