Erlent

Fleiri NATO-lönd fái afnot af Keflavíkurflugvelli

Frá fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í Kaupmannahöfn í gær. Frá vinstri: Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra Íslands, Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, og Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Frá fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í Kaupmannahöfn í gær. Frá vinstri: Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra Íslands, Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, og Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. MYND/Johannes Jansson/norden.org

Öryggismál Íslands voru rædd á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem fór fram í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn í gær. Ráðherrar hinna NATO-ríkjanna í hópnum, Noregs og Danmerkur, lýstu yfir vilja til að leggja sitt af mörkum til að hjálpa Íslendingum að mæta þeim áskorunum sem brottför bandaríska varnarliðsins hefur í för með sér.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið að hún hefði nefnt á fundinum að af Íslands hálfu kæmi það vel til greina að önnur NATO-ríki en Bandaríkin hefðu afnot af öryggissvæðinu, sem verður til frambúðar á Keflavíkurflugvelli. Hinar norrænu NATO-þjóðirnar, Norðmenn og Danir, myndu íhuga þetta.

Norski utanríkisráðherrann Jonas Gahr Støre sagði Norðmenn og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa fylgst náið með þróun þessara mála á Íslandi. Bæði Norðmenn og Danir hefðu áhuga á því að koma að því með Íslendingum að tryggja öryggi á hafsvæðinu í kringum Ísland, sem liggur að norskri og danskri lögsögu Færeyja og Grænlands.

Gahr Støre benti á að miklir orkuflutningar yrðu í fyrirsjáanlegri framtíð um þetta hafsvæði, frá gas- og olíuborpöllum í Barentshafi til Norður-Ameríku og Evrópu. Þannig væru öryggismál á þessu svæði nátengd orkuöryggi í öllum okkar heimshluta og því þyrfti að ræða þessi mál í því ljósi, bæði innan NATO og beint við Íslendinga.

Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, bætti því við að Danir væru boðnir og búnir að leggja sitt af mörkum í þessu sambandi, sérstaklega hvað varðar björgunarmál á hafinu og eflt landhelgisgæslusamstarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×