Skoðun

Með fjölbreytni að vopni

Nú þegar barátta vegna komandi prófkjara er í algleymingi gefst gott tækifæri til að staldra við og velta upp afar mikilvægri spurningu; hvers konar fólk viljum við sjá stjórna landinu okkar?

Eðlismunur prófkjöra og þingkosninga liggur fyrst og fremst í þeirri staðreynd að annars vegar er kosið á milli einstaklinga og hins vegar fylkinga. Í prófkjöri beinist athyglin í ríkari mæli að því sem hver og einn frambjóðandi hefur fram að færa, á meðan alþingiskosningar snúast um málefnaágreining flokkanna. Það hlýtur að vera ósk allra þátttakenda að prófkjörið skili eins sterkum hópi og mögulegt er.

Starf í stjórnmálum gengur fyrst og fremst út á að skapa jarðveg og aðstæður í samfélaginu sem hugnast þeim hugsjónum sem menn trúa á. Fólk sameinast í stjórnmálahreyfingum með þeim einstaklingum sem spila í takt við þeirra hugmyndir. Fyrir kosningar er síðan stillt upp taflborði leikmanna sem vinna í sameiningu að sigri. Í stað svarta og hvíta liðsins höfum við blátt, grænt, rautt, ljósblátt og vinstri grænt lið.

Sterkur spilari þekkir kosti þess að hafa ólíka taflleikmenn á borðinu og nýtir sér það óspart. Það gefur honum ekki einungis kost á fleiri afbrigðum sóknar- og varnarleiks, heldur gerir honum kleyft að koma andstæðingnum á óvart. Það síðasta sem skákspilarinn myndi velja sér væri að stilla upp eintómum biskupum og riddurum ásamt kóngi sínum. Það myndi gera leikaðferðir hans einfaldari, fyrirsjáanlegri og óskilvirkari.

Í prófkjöri er mikilvægt að velja sér einstaklinga með þetta að sjónarmiði. Stærsta hættan er sú að hópurinn verði einsleitur, fyrirsjáanlegur og óspennandi. Með því að sameina fólk með ólíkan bakgrunn og reynslu en stefna að sama takmarki er hægt að margfalda árangurinn.

Í gegnum tíðina hefur það loðað við íslensk stjórnmál að frambjóðendur eigi ekki greiða leið inn á lista nema hafa unnið sér þann sess í gegnum flokksstarf frá unga aldri. Flokksstarfið skal ekki vanmeta, en reynsla úr atvinnulífinu getur reynst ómetanleg í starfi stjórnmálanna enda geta þeir einstaklingar sem þaðan koma haft aðra sýn á mikilvæg málefni en hinn almenni stjórnmálamaður. Það er tvímælalaust til bóta að samþætting atvinnulífs og stjórnmála verði aukin til beggja átta.

Eins og ráðning fyrrum stjórnmálamanns getur reynst fyrirtækjum heillavænleg mun innkoma fólks úr atvinnulífinu vera lyftistöng fyrir stjórnmálin.

Það kom flestum á óvart þegar Guðfinna S. Bjarnadóttir, núverandi rektor Háskólans í Reykjavík bauð sig fram til starfa í stjórnmálum. Það er mikið fagnaðarefni að fólk á borð við Guðfinnu skuli gefa kost á sér til þingsetu og líklegt er að hún muni laða margan nýjan kjósandann að í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík sem og í kosningum í vor. Guðfinna hefur stýrt Háskólanum í Reykjavík í gegnum árangursríka uppbyggingu síðastliðin 8 ár og markað djúp spor í menntasögu okkar þjóðar.

Áður starfaði Guðfinna um langt skeið sem ráðgjafi alþjóðlegra stórfyrirtækja í Bandaríkjunum eftir að hún lauk þaðan doktorsnámi í atferlisfræði. Guðfinna hefur hvarvetna getið sér gott orð fyrir góðan árangur, áræðni, kraft og bjartsýni. Innkoma hennar er öðrum öflugum einstaklingum hvatning til að stíga slíkt skref.

Það er mikivlægt að við stöndum vörð um fjölbreytni. Stillum upp taflborði þar sem drottningar vinna með hrókum, riddarar vinna með peðum, biskupar berjast með og kóngurinn heldur velli. Skák og mát.

Höfundur er framkvæmdastjóri Verslunarráðs.




Skoðun

Sjá meira


×