Handbolti

Spennuþrungið jafntefli

óblíðar móttökur Vladimir Djuric kemst ekki fram hjá Arnari Péturssyni og Árna Sigtryggssyni.
óblíðar móttökur Vladimir Djuric kemst ekki fram hjá Arnari Péturssyni og Árna Sigtryggssyni. MYND/Anton

Fylkismenn héldu þriðja sæti deildarinnar í gær er liðið gerði jafntefli við liðið í fjórða sæti, Hauka úr Hafnarfirði. Leikurinn var æsispennandi frá fyrstu mínútu en bæði lið komust mest í þriggja marka forystu í sínum hvorum hálfleiknum. Fylkismenn skoruðu síðasta mark leiksins þegar ein mínúta var til leiksloka og misnotuðu bæði lið tækifæri til að stela sigrinum í síðustu sóknum sínum.

Vörn og markvarsla var það sem stóð upp úr en báðir markverðir áttu afar góðan dag. Vlad­imir Djuric kom sterkur inn í seinni hálfleik hjá Fylki og þá átti Ívar Grétarsson góðan leik. Hjá Haukum stóð enginn upp úr en áberandi er hversu slæm vítanýtingin var hjá báðum liðum. Aðeins var skorað úr fimm vítum af þrettán.

„Þetta var hörkuleikur og fullt af mistökum gerð hjá rauðum, appelsínugulum og svörtum. Auðvitað hefði ég viljað að við hefðum unnið leikinn en sigurinn hefði getað endað hjá hvoru liðinu sem var. Því er jafntefli ef til vill sanngjörn úrslit,“ sagði hornamaður Hauka, Guðmundur Pedersen, eftir leik.

„Við settum okkur það markmið fyrir leik að spila góða vörn og það gekk eftir. En við erum langt frá okkar besta í sóknarleiknum og það var engu líkara en leikmenn beggja liða væru mjög stressaðir. Fullt af mistökum voru gerð og leikmenn að kasta boltanum frá sér trekk í trekk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×