Erlent

Repúblikanar að missa fylgi meðal trúaðra mótmælenda

Kosningabaráttan í algleymingi
Myndin er tekin á fjáröflunarsamkomu í Washington á föstudaginn.
Kosningabaráttan í algleymingi Myndin er tekin á fjáröflunarsamkomu í Washington á föstudaginn. MYND/AP

Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum virðist vera að tapa fylgi, nú þegar aðeins tvær vikur eru til þingkosninga. Samkvæmt skoðanakönnun, sem vikuritið Newsweek birti um helgina, munar þar mestu um fylgi hvítra heittrúaðra mótmælenda, sem hingað til hafa verið ein helsta burðarstoðin í fylgi flokksins.

Samkvæmt skoðanakönnuninni ætla sextíu prósent trúaðra mótmælenda að kjósa Repúblikana, en 31 prósent myndu kjósa Demókrata. Þetta þykja tíðindi vegna þess að Repúblikanar hafa iðulega getað treyst því að um 75 prósent trúaðra mótmælenda kjósi flokkinn.

Fylgi Repúblikana meðal annarra kjósenda er einnig að minnka. Andstaða við Íraksstríðið á þar verulegan þátt, en einnig hefur hvert hneykslismálið í Repúblikanaflokknum rekið annað upp á síðkastið.

Repúblikanar hafa haft meirihluta í báðum deildum þingsins, en missi þeir meirihlutann verður ríkisstjórn George W. Bush hálf lömuð því þá þarf hún stuðning frá Demókrötum til þess að koma málum í gegnum þingið.

Kosningar verða haldnar 7. nóvember næstkomandi og þá verður kosið um þriðja hluta þingsæta í öldungadeildinni og öll þingsæti í fulltrúadeildinni. Forsetakosningar verða þó ekki fyrr en eftir tvö ár, þegar seinna kjörtímabili George W. Bush lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×