Innlent

Óvanar að þurfa að berjast

Hlutfall kvenna í stjórnum lífeyrissjóða hefur tvöfaldast á tveimur árum og er nú komið í 26,7 prósent, eða 31 kona af 116 stjórnarmönnum. Árið 2004 voru konur átján af 132 stjórnarmönnum eða 13,6 prósent.

Þetta kemur fram í athugun sem Landssamtök lífeyrissjóða gerðu hjá tuttugu stærstu lífeyrissjóðunum. Stjórnarmönnum fækkaði á tímabilinu vegna sameiningar lífeyrissjóðanna.

Félög kvenna í endurskoðun, lögmennsku, læknastétt og verkfræðingastétt hafa staðið fyrir átaki um fjölgun kvenna í stjórnum lífeyrissjóða undanfarin tvö ár að sögn Ernu Bryndísar Halldórsdóttur, fyrrverandi formanns félags kvenna í endurskoðun. „Við skrifuðum stjórnum verkalýðsfélaga, Samtökum atvinnulífsins og fleiri aðilum sem sjá um að tilnefna í stjórnir lífeyrissjóðanna og ýttum á að hugað yrði að því að tilnefna konur."

Erna Bryndís er ánægð með þessa fjölgun en segir að árangurinn gæti verið betri. „Auðvitað ætti stjórn að vera mynduð í hlutföllum við kynjaskiptingu lífeyrissjóða. Það er sláandi að í stjórnum sumra sjóða er engin kona." Erna segir vandann ekki felast í að vöntun sé á konum sem geti setið í stjórnum. „En þær eru bara ekki jafn kræfar í því að gefa kost á sér og óvanar að þurfa að berjast fyrir stöðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×