Sport

Gummersbach á toppinn

Gummersbach, lið Alfreðs Gíslasonar, endurheimti toppsætið í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í gær eftir að liðið vann Melsungen á heimavelli sínum í gær, 38-30. Liðið er nú komið með 14 stig eftir átta leiki, tveimur stigum meira en Hamburg og Nordhorn, en þau hafa leikið einum leik færra.

Guðjón Valur Sigurðsson var frábær fyrir Gummersbach í leiknum og skoraði 10 mörk en Róbert Gunnarsson stóð einnig fyrir sínu og skoraði fimm. Sverre Jakobsson lék ekki með vegna meiðsla.

Snorri Steinn Guðjónsson og Einar Örn Jónsson skoruðu fimm mörk hvor og voru í hópi markahæstu manna fyrir Minden sem bar sigurorð af Dusseldorf á heimavelli sínum í gær, 33-31. Þetta var fyrsti sigur Minden á tímabilinu í ár en liðið hafði tapað fyrstu sex leikjum deildarinnar. Þá hafði Kiel betur gegn Lubbucke á heimavelli sínum, 38-24, en Þórir Ólafsson komst ekki á blað fyrir síðarnefnda liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×