Innlent

Leita stolinna upplýsinga

Hraðbanki. Fyrr á árinu gerði lögreglan á Seyðisfirði upptækan búnað sem hægt var að nota til að stela upplýsingum af kortum sem notuð voru í hraðbönkum.
Hraðbanki. Fyrr á árinu gerði lögreglan á Seyðisfirði upptækan búnað sem hægt var að nota til að stela upplýsingum af kortum sem notuð voru í hraðbönkum.

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú hvort og þá hvaða upplýsingar njósnabúnaður sem fannst á kortasjálfsala við bensínstöð á höfuðborgarsvæðinu hefur að geyma. Tilkynnt var um búnaðinn til lögreglu í lok síðasta mánaðar, sem tók málið þegar til rannsóknar.

Tilgangur þeirra sem komu njósnabúnaðinum fyrir á sjálfsalanum var að láta hann lesa upplýsingar af segulrönd greiðslukorts, þar með talið svonefnt pin-númer. Að sögn Harðar Jóhannessonar yfirlögregluþjóns í Reykjavík er þetta í fyrsta sinn sem slíkt mál kemur upp hér á landi. Upp um búnaðinn komst þar sem sjálfsalinn hafði ekki virkað sem skyldi. Talið er að njósnatækið hafi ekki verið búið að vera lengi á honum þegar það uppgötvaðist, en því hafði verið komið fyrir þar sem greiðslukortinu er stungið í rauf sjálfsalans.

Fyrr á árinu gerði lögreglan austur á fjörðum fjögur njósnatæki upptæk, en þau var hægt að setja á hraðbanka og stela þannig upplýsingum af kortum. Að sögn Óskars Bjartmarz yfirlögregluþjóns vildi maðurinn sem tækin fundust hjá ekki gangast við að eiga þau, þannig að það mál gekk ekki lengra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×