Körfubolti

Njarðvík spilar heimaleikina í Keflavík

Erkifjendur á sama velli. Jeb Ivey og félagar í Njarðvík munu spila heimaleiki sína í Evrópukeppninni í Sláturhúsinu í Keflavík.
Erkifjendur á sama velli. Jeb Ivey og félagar í Njarðvík munu spila heimaleiki sína í Evrópukeppninni í Sláturhúsinu í Keflavík.

Sú skondna staða er komin upp að Njarðvík mun leika heimaleiki sína í Evrópukeppninni á heimavelli erkifjendanna í Keflavík. Körfuknattleikssamband Evrópu neitaði að samþykkja litlu ljónagryfjuna í Njarðvík sem völl fyrir Evrópukeppni og því varð Njarðvík að kyngja stoltinu og sætta sig við að spila hjá "stóra" bróður.

"Við eigum ekki annarra kosta völ en að gera þetta," sagði Valþór Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, við Fréttablaðið.

"Þetta er samt í heimabyggð og það er stutt að fara. Það er vissulega kostur en fúlt fyrir strákana að þurfa að spila á velli höfuðandstæðinganna."

Ein ástæðan fyrir þessu vali á íþróttahúsi er að félagið sparar nokkuð. "Annars staðar hefðum við þurft að borga leigu og svo erum við í þessu með Keflavík. Við spilum sinn daginn hvort lið og fáum því sömu dómara og með því sparast peningur. Það er dýrt að taka þátt í Evrópukeppni og menn verða að spara þar sem það er hægt," sagði Valþór en játti því að vissulega verði þetta skrítið.

"Auðvitað verður þetta skrítið en við verðum að setja okkur í annan gír og annað hlutverk. Það hefur enginn neitað að spila og ég á ekki von á því að það gerist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×