Magni Ásgeirsson komst í úrslitaþátt Rock Star: Supernova eftir að öll atkvæði höfðu verið talin. Magni var um tíma meðal þriggja neðstu eins og allir hinir fimm þátttakendurnir en þegar allt kom til alls var hann ekki í hættu.
Söngvarinn frá Borgarfirði eystri verður því á sviðinu í næstu viku þegar í ljós kemur hver verður næsti söngvari rokkgrúppunnar Supernova. Sannkallað Rock Star-æði hefur gripið Íslendinga og hafa aldrei verið greidd jafn mörg atkvæði og aðfaranótt miðvikudags.
Hefur verið haft á orði að það hljóti að verða erfitt fyrir þá þrjá sem etja kappi við Magna að berjast við þrjú hundruð þúsund manna kolbrjálaða þjóð í Norður-Atlantshafi.
Magni fékk mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína í tónleikaþættinum en hann flutti bítlalagið Back In the U.S.S.R og frumsamda lagið When the Time Comes. Magna áskotnaðist síðan sá heiður að syngja með Supernova í atkvæðaþættinum og fékk mikið lófaklapp fyrir flutning sinn.
Vinsældir Magna ná hins vegar út fyrir landsteinana, því á uppboðsvefnum eBay er til sölu armband með mynd af söngvaranum sem og músarmotta og geta aðdáendur hans fest kaup á þeim fyrir lítinn pening en mottan kostar sex dollara, sem samsvarar 420 krónum, og armbandið er falt fyrir fimm dollara, eða 350 krónur.
Magni í úrslitaþátt Rock Star
