Innlent

Eðlilegt að leysa félagið upp

Elliði Vignisson
Elliði Vignisson

Engin starfsemi er nú í Eignarhaldsfélagi Vestmanneyja og rætt hefur verið um að leysa félagið upp. Byggðastofnun lagði stæstan hlut í eignarhaldsfélagið, 78,5 milljónir eða um 40 prósent alls hlutafjár.

Hörður Óskarsson, formaður stjórnar eignarhaldsfélagsins, segir félagið ekki gjaldþrota en það sé aftur á móti búið að tapa megninu af sínu hlutafé. Sem kunnugt er fjárfesti eignarhaldsfélagið í Íslenskum matvælum fyrir 130 milljónir króna en fyrirtækið fór á hausinn.

Eignarhaldsfélagið keypti Íslensk matvæli daginn eftir að það var stofnað og þegar sú ákvörðun var tekin hafði ekkert verið greitt í stofnfé eignarhaldsfélagsins.

Guðjón Hjörleifsson og Þorsteinn Sverrisson lánuðu kennitölur sínar til eignarhaldsfélagsins en aldrei var gert ráð fyrir að þeir greiddu til þess enda hafa þeir ekki gert það.

Hörður segir eignarhaldsfélagið eiga nokkrar milljónir í sjóði en það sé ekki nægjanlegt til að fara út í fjárfestingar og út frá því sé eðilegt að leysa félagið upp.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmanneyja, segir Vestmannaeyjabæ hafa lagt fram eina milljón til eignarhaldsfélagsins ásamt vinnu. Hann segir eðlilegt að leysa félagið upp þar sem engin starfsemi sé í gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×