Innlent

Skip og kvóti seld til Hafnar

Frá Húsavík Langanes hf. hefur um árabil gert út skip frá Húsavík.
Frá Húsavík Langanes hf. hefur um árabil gert út skip frá Húsavík. MYND/GVA

Útgerðarfélagið Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði gekk í gær frá kaupum á hlut Bjarna Aðalgeirssonar og fjölskyldu í útgerðarfélaginu Langanesi hf. Langanes hefur gert út skipin Bjarna Sveinsson og Björgu Jónsdóttur um árabil.

Bjarni Aðalgeirsson, sem hefur lengi stýrt starfi Langaness hf., segir aflaverðmætin sem fylgi með í kaupunum fyrst og fremst vera uppsjávarkvóta. Þetta er rúmlega tvö prósent af heildarloðnukvótanum, 2,8 prósent af norsk-íslenska stofninum og meira til viðbótar af öðrum tegundum. Við gáfum okkur tíma til þess að ganga frá þessum samningum og vorum ekkert að flýta okkur að þessu. Þetta eru mikil tímamót, en menn verða fullorðnir og taka þá ákvarðanir um breytingar, sagði Bjarni.

Langanes hf. var stofnað 1975 á Þórshöfn en nokkrum árum síðar voru höfuðstöðvar fyrirtækisins fluttar til Húsavíkur. Í rúmlega 26 ár hefur Langanes gert út samtals átta skip frá Húsavík.

Áhafnir á skipunum tveimur verða að mestu skipaðar sama fólki áfram, samkvæmt upplýsingum frá Aðalsteini Ingólfssyni, forstjóra hjá Skinney-Þinganesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×