Sport

Eiður lagði upp mark Messi

fagnað Eiður Smári fagnar einu af mörkunum með félögum sínum.
fagnað Eiður Smári fagnar einu af mörkunum með félögum sínum. MYND/nordicphotos/getty

Evrópumeistarar Barcelona léku sinn síðasta æfingaleik í keppnisferðinni um Amaeríku þegar þeir lögðu bandaríska liðið Red Bulls 4-1 en leikurinn fór fram í New York í fyrrinótt. Ronaldinho skoraði tvö mörk fyrir Barcelona en hin mörkin skoruðu hinir argentínsku Lionel Messi og Javier Saviola. Gamla kempan Youri Djorkaeff skoraði eina mark Red Bull. Eiður Smári Guðjohnsen lék síðari hálfleikinn í leiknum og lagði upp markið sem Messi skoraði.

"Ég er ánægður með þennan leik. Mér fannst Red Bulls spila þetta vel, leikmenn liðsins voru komnir með það að markmiði að sækja og úr varð þessi skemmtilegi leikur," sagði Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona, en hann var ánægður með vel heppnaða æfingaferð liðsins.

Keppni í spænsku deildinni hefst sunnudaginn 10. september en fyrsti leikur Barcelona verður á heimavelli gegn Osasuna. Það er búist við miklu af Börsungum en portúgalski miðvallarleikmaðurinn Deco sagði í viðtali í gær að leikmenn liðsins láta pressuna ekki á sig fá. "Við erum vel undirbúnir og liðið hefur styrkst frá síðasta tímabili svo stefnan er að sjálfsögðu að vinna alla titla sem við eigum möguleika á," sagði Deco.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×