Magnús Kristinsson, útgerðarmaður, hefur gert tilboð í Toyota-umboðið, P. Samúelsson hf. Búist er við að gengið verði frá kaupum hans á þessu stærsta bílaumboði landsins fyrir áramót.
Magnús staðfesti í samtali við fréttastofuna að hann ætti í viðræðum við Pál Samúelsson, aðaleiganda samnefnds félags, og að hann hefði gert tilboð í Toyota umboðið. Magnús sagði hins vegar að enn væru margir þröskuldar. Aðili tengdur málinu segir viðræður komnar það langt að líklegt þykir að niðurstaða fáist fyrir áramót. Annar heimildarmaður segir að í raun liggi fyrir samkomulag en beðið sé staðfestingar Toyota í Japan um að umboðið haldist áfram í félaginu eftir eigendaskipti.
Ekki fást staðfestar upplýsingar um kaupverð en heimildarmenn telja það vera í kringum fimm milljarða króna. P. Samúelsson er stærsta bílaumboð landsins og hefur Toyota um árabil verið söluhæsta bílategundin. Á þessu ári stefnir í að fyrirtækið selji yfir 4.500 bíla og að veltan nálgist sautján milljarða króna.
Fyrirtækið er í eigu Páls Samúelssonar og fjölskyldu hans. Nokkurt uppnám varð innan þess snemma á árinu þegar níu yfirmenn hættu skyndilega í kjölfar forstjóraskipta. Rótin að því uppgjöri er talin þau sinnaskipti Páls Samúelssonar að hætta við að selja fyrirtækið til stjórnendannaa.
Nýtt söluferli hófst svo í haust og var reyndar einn hluti fyrirtækisins, Kraftvélar, seldur í síðustu vikur. Kaupandi var Ævar Þorsteinsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Kraftvéla. Flest bendir nú til þess að Magnús Kristinsson eignist félagið að öðru leyti. Magnús efnaðist af útgerð í Vestmannaeyjum en hefur síðar orðið einn af stærstu eigendum Straums-Burðaráss og enska knattspyrnufélagsins Stoke.