Innlent

Jón óttast ekki dómstóla

Stefna Öryrkjabandalagsins á hendur ríkisstjórninni vegna vanefnda á samkomulagi við öryrkja verður þingfest á morgun. Heilbrigðisráðherra segist ekki óttast dómstóla. Öryrkjar telja að fimmhundruð milljónir vanti upp á til að samkomulagið sem gert var í mars árið 2003, sé að fullu efnt.

Samkomulagið var undirritað að viðstöddum blaðamönnum og forsvarsmönnum heilbrigðismála þann 25. mars árið 2003 og fjallaði um línulega hækkun grunnlífeyristekna örorkulífeyrisþega. Garðar Sverrisson, þáverandi formaður Öryrkjabandalagsins, og Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra undirrituðu samkomulagið. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram kom í ljós að að einum milljarði króna átti að veita til efnda á samkomulaginu, en útreikningar höfðu gert ráð fyrir að það kostaði einn og hálfan milljarð króna. Jón Kristjánsson segist telja að samkomulagið hafi verið efnt að fullu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×