Sport

Bryant og Iverson skoruðu 42 stig

Allen Iverson skoraði 42 stig gegn Toronto í nótt og hitti óvenju vel, nýtti 16 af 26 skotum sínum og gaf 7 stoðsendingar
Allen Iverson skoraði 42 stig gegn Toronto í nótt og hitti óvenju vel, nýtti 16 af 26 skotum sínum og gaf 7 stoðsendingar Nordic Photos/Getty Images

Átta leikir voru á dagskrá í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Kobe Bryant hjá LA Lakers og Allen Iverson hjá Philadelphia voru í miklu stuði og leiddu lið sín til sigurs með því að skora 42 stig.

Philadelphia sigraði Toronto öðru sinni í vikunni, í þetta sinn á útivelli 121-115. Toronto hefur enn ekki unnið leik í deildinni og hefur tapað fimm af átta fyrstu leikjum sínum á heimavelli. Allen Iverson skoraði 42 stig fyrir Philadelphia, Andre Iguadalia skoraði 26 stig og hirti 10 fráköst og Chris Webber skoraði 21 stig, hirti 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Mike James fór á kostum í liði Toronto og skoraði 38 stig og átti 9 stoðsendingar og Chris Bosh skoraði 23 stig og hirti 10 fráköst.

Seattle vann góðan útisigur á Boston í sjónvarpsleik kvöldsins á NBA TV, 113-100, þar sem Paul Pierce skoraði 22 stig fyrir Boston, en Ray Allen var með 32 stig fyrir Seattle.

Charlotte vann mjög óvæntan stórsigur á Indiana 122-90. Þetta var stærsti sigur í sögu Charlotte Bobcats, en liðið hafði tapað fimm leikjum í röð fyrir viðureignina í nótt. Kareem Rush setti persónulegt met með 35 stigum fyrir Charlotte og nýliðinn Raymond Felton skoraði 18 stig og gaf 10 stoðsendingar, en hann lék í fyrsta sinn í byrjunarliði Charlotte í fjarveru Brevin Knight sem var meiddur. Ron Artest var atkvæðamestur í liði Indiana með 27 stig.

Denver sigraði New Orleans 91-81 á útivelli. Carmelo Anthony skoraði 31 stig fyrir Denver, en nýliðinn Chris Paul skoraði 18 fyrir New Orleans.

Phoenix tapaði enn eina ferðina á heimavelli og nú fyrir Memphis 115-103. Shawn Marion var atkvæðamestur hjá Phoenix með 23 stig og 11 fráköst, en Damon Stoudamire var stigahæstu hjá Memphis með 26 stig og Mike Miller skoraði 24 stig.

LA Lakers sigraði New York 97-92 þar sem Kobe Bryant skoraði 42 stig eins og áður sagði, en hitti raunar aðeins úr 15 af 36 skotum sínum í leiknum. Channing Frye skoraði mest hjá New York, 21 stig af varamannabekknum.

Portland lagði Chicago á heimavelli 96-93. Mike Sweetney var allt í öllu hjá Chicago með 24 stig og 14 fráköst, en Zach Randolph skoraði 22 stig og hirti 10 fráköst fyrir Portland.

Loks vann Milwaukee góðan 90-87 sigur á Golden State á útivelli. Michael Redd skoraði 27 stig fyrir Milwaukee, en Jason Richardson skoraði 21 stig fyrir Golden State. Baron Davis hefur verið driffjöðurin í liði Golden State undanfarið, en hörmuleg skotnýting hans í leiknum í gærkvöldi kann að hafa kostað liðið sigurinn því hann nýtti aðeins 4 af 21 skoti sínu í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×