Sport

Magloire til Milwaukee Bucks

Milwaukee Bucks var duglegt á leikmannamarkaði NBA í sumar og fékk meðal annars fyrsta valréttinn í nýliðavalinu. Í gærkvöldi nældi félagið svo í enn einn leikmanninn þegar það fékk til sín miðherjann Jamaal Magloire frá New Orleans, í skiptum fyrir framherjann Desmond Mason og valrétt í nýliðavalinu á næsta ári.

Magloire er öflugur miðherji og á að baki stjörnuleik, en gat lítið spilað með Hornets í fyrra vegna meiðsla. Árið þar á undan skoraði hann að meðaltali 13,6 stig í leik og hirti rúm 10 fráköst í leik. Hann er 27 ára gamall.

Desmond Mason er framherji og mikill íþróttamaður, sem á meðal annars að baki sigur í troðkeppninni um stjörnuhelgina. Mason er 28 ár og er á sínu sjötta ári eins og Magloire, en hann hefur bætt sig í stigaskorun á hverju ári síðan hann kom inn í deildina á sínum tíma og var með rúm 17 stig að meðaltali í fyrra.

Valrétturinn sem Milwaukee fær á næsta ári gæti einnig orðið verðmætur, því hann er án formerkja og þar sem búist er við að New Orleans verði neðarlega í töflunni í ár, gæti fengist ágætur nýliði fyrir það næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×