Innlent

Faldi hass í holri bók

37 ára gömul dönsk kona hefur verið dæmd í mán­að­ar­fangelsi fyrir að reyna að smygla hingað 320,19 grömmum af hassi 30. september síðastliðinn. Dóm­ur­inn, sem upp var kveðinn í Héraðsdómi Reykjaness, er skilorðsbundinn í þrjú ár. Konan var gripin við tollskoðun á Keflavíkurflugvelli við komuna frá Kaupmannahöfn. Talið var í ákæru að hassið hefði verið ætlað til sölu, en það hafði hún falið innan í bók um Harry Potter, en búið var að skera úr síðum og búa þannig til holrúm. Saksókn málsins miðaði hins vegar ekki við að konan hefði flutt inn efnin í söluskyni, og var sú breyting bókuð við meðferð málsins. Konan játaði að hafa flutt inn efnin, en kvað þau hafa verið ætluð til neyslu. "Hún sagðist fara létt með að svæla þetta á nokkrum dögum, ef ég man rétt," segir Sævar Lýðssson, fulltrúi Sýslumanns á Keflavíkurflugvelli. Guðmundur B. Ólafsson, lögmaður konunnar, taldi þó líklegra að efnanna hefði átt að neyta í einhverju veislu­haldi hér, án þess þó að þar um lægi nokkuð staðfest. Konan er tónlistarmaður og starfar með hljómsveit í Danmörku. Guðmundur sagði hana ekki gera athugasemdir við dóminn og að honum yrði ekki áfrýjað. Sævar sagði dóminn í sam­­ræmi­ við dómavenju í málum sem þessum. Þetta væri hennar ­fyrsta brot og hún ekki búsett hér á landi. Hann taldi hægt að miða við sem þumalputtareglu að mánaðarfangelsi lægi við að smygla kílói af hassi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×